Loksins sátt í höllinni

Það var kominn tími til að breska konungsfjölskyldan færi að tjá sig um mál seinustu viku og er ég þá að sjálfsögðu að tala um yfirlýsingu Harry og Meghan um að þau vilji draga úr hlutverki sínu innan konungsfjölskyldunnar. Eða eins og þau sjálf tala um, þau vilji draga sig í hlé sem heldri meðlimir fjölskyldunnar.

Málið hefur verið mikið rætt undanfarna daga og því óþarfi að fara ítarlega yfir það, heldur frekar fara yfir það sem var gert opinbert í gær. Margir biðu eftir því að helstu meðlimir konungsfjölskyldunnar myndu hittast í persónu og fara yfir málin. Harry hitti Elísabetu drottningu, Karl bretaprins og Vilhjálm, hertogann af Cambridge á Sandringham-setrinu í gær og var Meghan með í gegnum síma. Mun enginn vita hvað nákvæmlega fór fram en tvær tilkynningar voru gerðar opinberar í gær sem gefa til kynna um hvað sé að gerast á bakvið tjöldin. 

Gærdagurinn byrjaði á því að Harry og Vilhjálmur gáfu út sameiginlega yfirlýsingu þar sem þeir mótmæltu fréttaflutningi um að samband þeirra væri í molum. Nefndu þeir að þar sem þeir eru miklir talsmenn góðrar andlegrar heilsu þá telja þeir svona tal vera móðgandi og mögulega skaðlegt. Þessi tilkynning þeirra gefur sterkt merki um það að samband þeirra er ekki eins slæmt og hefur verið haldið. Þetta er einnig mjög sterkur leikur til að sýna að fjölskylduböndin eru ennþá sterk og að þeir standi saman sem bræður. 
Síðan kom að drottningunni sjálfri að tjá sig. Elísabet er ekki þekkt fyrir að taka sterka afstöðu og kemur því ekkert á óvart að tilkynningin frá henni tali um að hún styðji við sonarsoninn og fjölskyldu hans, en harmi að Harry og Meghan vilji minnka hlutverk sitt innan konungsfjölskyldunnar. Það sem kemur hinsvegar á óvart í tilkynningunni, er hversu persónuleg hún er. Hún er skrifuð í fyrstu persónu og er frekar óformleg, miðað við að vera tilkynning frá drottningunni. Sami tónn er í þessari tilkynningu og þeirri frá prinsabræðrunum; fjölskyldan stendur saman. 

Í raun er þessi aftstaða um samstöðu það eina sem var til í stöðunni fyrir konungsfjölskylduna eftir yfirlýsinguna. Allt hefði farið á hliðina ef konungsfjölskyldan hefði afneitað Harry og Meghan, eða neitað þeim um að minnka við sig. Konungsfjölskyldan þarf ávallt að vera hlutlaus og reynir sitt besta að vera ekki of umdeild, sama hversu vel það gengur. Því er mikilvægt að sýna almenningi að það sé kátt í höllinni og allir sáttir. 

Vandamálið við þær breytingar sem Harry og Meghan vilja er að smáatriðin eru alls ekki á hreinu. Svona breyting hefur aldrei átt sér stað áður og það eru ekki til nein fordæmi innan konungfjölskyldunnar um þetta. Hvernig ætla Harry og Meghan að verða fjárhagslega sjáfstæð en samt sinna konunglegum skyldum? Hver mun borga fyrir öryggisverði þeirra? Munu þau þurfa að borga skatt í Kanada og Bretlandi af þeim tekjum sem þau fá? Og svo er stóra spurningin um hvort þau muni halda konunglegu tigninni sem fylgir hertogatitlunum þeirra. Von er á frekari tilkynningu frá höllinni á næstu dögum þar sem drottningin vill klára þetta mál sem fyrst og verður spennandi að fá frekari svör. Sama hvað gerist mun þetta verða ein stærsta breyting sem breska konungsfjölskyldan hefur gert lengi og mun hafa mikil áhrif á framtíðarmeðlimi hennar og jafnvel gefa meðlimum konungsfjölskyldunnar aukið frelsi. 


Hin stóra ákvörðun Harry og Meghan

Hertogahjónin af Sussex tilkynntu í gær að þau muni á næstunni vinna að því að breyta hlutverki sínu innan bresku konungsfjölskyldunnar. Í tilkynningunni tala þau um að þau ætli að draga sig í hlé sem „senior“ meðlimir konungsfjölskyldunnar og vilji verða fjárhagslega sjálfstæð. Einnig stefna þau að því að verja meira af tíma sínum í Norður-Ameríku. Tilkynningin kemur virkilega á óvart og er í sönnum anda hertogahjónanna sem oft hafa farið nýjar leiðir og vikið frá gömlum venjum bresku konungsfjölskyldunnar.

Tilkynningin kom jafnvel sjálfri konungsfjölskyldunni á óvart. Buckinghamhöll gaf út yfirlýsingu í gærkvöldi um að þessi ákvörðun Harry og Meghan væri á grunnstigi og að það væri margt framundan sem þarf að ræða og fara yfir, enda er þetta mjög einstakt og flókið mál að mörgu leyti. BBC greindi einnig frá því að tilkynning hertogahjónanna hefði verið gefin út án þess að talað hefði verið við Elísabetu Bretadrottningu eða einhvern af hennar starfsliði. Í raun hafi enginn annar meðlimur konungsfjölskyldunnar vitað af því að tilkynningin yrði gerð opinber.

 
 
 
View this post on Instagram

A post shared by The Duke and Duchess of Sussex (@sussexroyal) on Jan 8, 2020 at 10:33am PST

 

Hvað er „senior“ meðlimur konungsfjölskyldunnar?

Margt sem viðkemur bresku konungsfjölskyldunni getur verið erfitt að þýða yfir á íslensku en þýða má hugtakið sem heldri meðlimir konungsfjölskyldunnar. Einfalda útskýringin er sú að þetta eru allir þeir meðlimir konungsfjölskyldunnar sem sinna opinberum skyldum af hálfu drottningarinnar. Hins vegar er þetta aðeins flóknara en það því samkvæmt hefðum konungsfjölskyldunnar þá á þetta við um þá meðlimi sem eru hærra settir, eru meira í sviðsljósinu og sinna fleiri opinberum skyldum. Í raun má segja að þetta eru þeir meðlimir sem almenningur verður hvað mestur var við, þ.e.a.s. drottningin og nánustu erfingjar hennar. Þessir meðlimir konungsfjölskyldunnar eru einnig þeir sem fá hvað mestan pening frá ríkisstjórninni.

 

Af hverju að taka þessa ákvörðun?

Í fyrra voru hertogahjónin mikið gagnrýnd af hinum ýmsu ástæðum og má segja að mikið drama hafi verið í kringum þau en fólk var jafnvel farið að velta því fyrir sér hvort þau myndu segja sig alfarið úr konungsfjölskyldunni.

Þessi tilkynning Harry og Meghan útskýrir margt sem þau hafa verið að gera undanfarið ár sem margir hafa furðað sig á. Að mörgu leyti hafa Harry og Meghan verið að ýja að ákvörðuninni síðan þau giftu sig. Þau hafa verið að kalla eftir auknum rétti til einkalífs og hafa takmarkað aðgang fjölmiðla að t.d. fæðingu og skírn sonar þeirra. Einnig var það gefið út að Archie myndi ekki bera neinn konunglegan titil, sem er óvenjulegt miðað við stöðu foreldra hans. En þessar ákvarðanir hafa einmitt verið gagnrýndar á þeim grundvelli að þau fái pening frá skattborgurum. Hefur sú gagrýni eflaust ýtt undir þessa ákvörðun þeirra.

Í tilkynningunni er bent á nýja heimasíðu hertogahjónanna, sussexroyal.com, en þar má finna mikið af upplýsingum og svörum um þessa ákvörðun. Á síðunni tala þau um að fjárhagurinn sé ein helsta ástæðan fyrir þessari ákvörðun. Þessi breyting muni leyfa þeim að vera sjáfstæðari og taka við launum fyrir störf sín. Þau fara mjög vel yfir fjármál konungsfölskyldunnar á síðunni og útskýra þar hvernig kerfið virkar. Fjármál konungsfjölskyldunnar eru þó flókið fyrirbæri og efni í annan pistil! Í stuttu máli, þá taka þau ekki við neinum launum í því starfi sem þau eru núna, en fá styrk frá bresku ríkistjórninni sem meðlimir konungsfjölskyldunnar í fullu starfi.

Til að draga saman er ástæðan sú að þau vilji vera sjálfstæðari og vilji vinna að fleiri verkefnum sem eru ótengd konungsfjölskyldunni.

 

Hvert verður hlutverk Harry og Meghan núna?

Það má segja að Harry og Meghan séu að gera konunglega hlutverkið að hlutastarfi. Við munum ennþá sjá töluvert af þeim, en í allt öðruvísi hlutverki og minna í verkefnum sem tengjast konungsfjölskyldunni. Þau eru bæði mjög þekkt og munu ávallt vera í sviðsljósinu að einhverju leyti. Hertogahjónin eru með ýmis verkefni á prjónunum og er Harry prins t.d. að búa til sjónvarpsþætti með Oprah sem munu fjalla um andlega heilsu.

Þau munu halda konunglegu titlunum sínum og eru til fordæmi um að meðlimir konungsfjölskyldunnar vinni fullt launað starf og haldi konunglegum titli, t.d. er prinsessurnar Beatrice og Eugenie báðar í fullu starfi en eru ennþá með sína titla. Prinsessurnar teljast ekki sem heldri meðlimir konungsfjölskyldunnar.

Líklegt er að þau muni flytja til Kanada og vera þar meirihluta ársins og síðan koma til Bretlands til að sinna opinberum heimsóknum. Undanfarnar vikur hafa hertogahjónin verið í fríi í Kanada, en Meghan bjó þar áður en þau giftu sig.

Þessi breyting á hlutverki þeirra mun gefa þeim meira vald og meira sjálfstæði til að taka ákvarðanir og höllin mun hafa minna svigrúm til þess að stjórna því hvað þau gera.

 

Hvað finnst fólki um þetta?

Þó svo að heimasíða Harry og Meghan svari mörgum spurningum þá er margt sem er óskýrt. Ekki er tekið fram hvaða skyldum þau muni sinna fyrir drottninguna og hversu oft þau muni koma opinberlega fram.

Ákvörðun þeirra er að mörgu leyti farin að vera umdeild, sérstaklega í ljósi þeirra upplýsinga að þetta hafi ekki verið gert í samráði við konungsfjölskylduna. Margir vilja meina að ákvörðunin sé komin frá Meghan og byrjaði myllumerkið #Megxit að ganga í gærkvöldi á samfélagsmiðlum, í tengingu við Brexit. En það má alls ekki draga úr því að Harry prins hefur ávallt haft orð á því að hann sé ekki hrifinn af sviðsljósinu og hinu stranga hlutverki sem fylgir því að vera í konungsfjölskyldunni. Því má ganga út frá því að þetta sé ákvörðun þeirra beggja.

Margar tilgátur hafa komið fram um ástæðu þess að þau hafi ekki látið neinn innan konungsfjölskyldunnar vita. Ein þeirra er sú að það hafi verið til þess að viðræður um breytt hlutverk þeirra yrðu haldnar á þeirra forsendum, sem er auðveldara þegar almenningur veit af þessu og hefur væntingar byggðar á upplýsingum frá Harry og Meghan.

Flestir eru þó ennþá að átta sig á því hvað þetta þýðir og hvað muni gerast næst. Verður því mjög áhugavert að fylgjast áfram með þessu máli og sjá hvernig það þróast.


Um bloggið

Guðný Ósk Laxdal

Höfundur

Guðný Ósk Laxdal
Guðný Ósk Laxdal

Konungsfjölskyldur eru merkilegt menningarfyrirbæri sem eru stöðugt í sviðsljósinu og vekja sífellt áhuga. Guðný stúderaði nútímavæðingu bresku konungsfjölskyldunnar í B.A. ritgerð sinni í ensku við HÍ og hefur ávallt haft gaman af konunglegum málefnum, bæði sem dægurmál og fræðilegt menningarfyrirbæri. Hún skrifar útskýringarpistla og segir frá skemmtilegum staðreyndum og fer nánar í konunglegt slúður. Hún fjallar frekar um konungsfjölskylduna á instagram @royalicelander.

Færsluflokkar

Jan. 2020
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot 2020-01-08 at 21.54.00

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 8
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband