Loksins sátt í höllinni

Það var kominn tími til að breska konungsfjölskyldan færi að tjá sig um mál seinustu viku og er ég þá að sjálfsögðu að tala um yfirlýsingu Harry og Meghan um að þau vilji draga úr hlutverki sínu innan konungsfjölskyldunnar. Eða eins og þau sjálf tala um, þau vilji draga sig í hlé sem heldri meðlimir fjölskyldunnar.

Málið hefur verið mikið rætt undanfarna daga og því óþarfi að fara ítarlega yfir það, heldur frekar fara yfir það sem var gert opinbert í gær. Margir biðu eftir því að helstu meðlimir konungsfjölskyldunnar myndu hittast í persónu og fara yfir málin. Harry hitti Elísabetu drottningu, Karl bretaprins og Vilhjálm, hertogann af Cambridge á Sandringham-setrinu í gær og var Meghan með í gegnum síma. Mun enginn vita hvað nákvæmlega fór fram en tvær tilkynningar voru gerðar opinberar í gær sem gefa til kynna um hvað sé að gerast á bakvið tjöldin. 

Gærdagurinn byrjaði á því að Harry og Vilhjálmur gáfu út sameiginlega yfirlýsingu þar sem þeir mótmæltu fréttaflutningi um að samband þeirra væri í molum. Nefndu þeir að þar sem þeir eru miklir talsmenn góðrar andlegrar heilsu þá telja þeir svona tal vera móðgandi og mögulega skaðlegt. Þessi tilkynning þeirra gefur sterkt merki um það að samband þeirra er ekki eins slæmt og hefur verið haldið. Þetta er einnig mjög sterkur leikur til að sýna að fjölskylduböndin eru ennþá sterk og að þeir standi saman sem bræður. 
Síðan kom að drottningunni sjálfri að tjá sig. Elísabet er ekki þekkt fyrir að taka sterka afstöðu og kemur því ekkert á óvart að tilkynningin frá henni tali um að hún styðji við sonarsoninn og fjölskyldu hans, en harmi að Harry og Meghan vilji minnka hlutverk sitt innan konungsfjölskyldunnar. Það sem kemur hinsvegar á óvart í tilkynningunni, er hversu persónuleg hún er. Hún er skrifuð í fyrstu persónu og er frekar óformleg, miðað við að vera tilkynning frá drottningunni. Sami tónn er í þessari tilkynningu og þeirri frá prinsabræðrunum; fjölskyldan stendur saman. 

Í raun er þessi aftstaða um samstöðu það eina sem var til í stöðunni fyrir konungsfjölskylduna eftir yfirlýsinguna. Allt hefði farið á hliðina ef konungsfjölskyldan hefði afneitað Harry og Meghan, eða neitað þeim um að minnka við sig. Konungsfjölskyldan þarf ávallt að vera hlutlaus og reynir sitt besta að vera ekki of umdeild, sama hversu vel það gengur. Því er mikilvægt að sýna almenningi að það sé kátt í höllinni og allir sáttir. 

Vandamálið við þær breytingar sem Harry og Meghan vilja er að smáatriðin eru alls ekki á hreinu. Svona breyting hefur aldrei átt sér stað áður og það eru ekki til nein fordæmi innan konungfjölskyldunnar um þetta. Hvernig ætla Harry og Meghan að verða fjárhagslega sjáfstæð en samt sinna konunglegum skyldum? Hver mun borga fyrir öryggisverði þeirra? Munu þau þurfa að borga skatt í Kanada og Bretlandi af þeim tekjum sem þau fá? Og svo er stóra spurningin um hvort þau muni halda konunglegu tigninni sem fylgir hertogatitlunum þeirra. Von er á frekari tilkynningu frá höllinni á næstu dögum þar sem drottningin vill klára þetta mál sem fyrst og verður spennandi að fá frekari svör. Sama hvað gerist mun þetta verða ein stærsta breyting sem breska konungsfjölskyldan hefur gert lengi og mun hafa mikil áhrif á framtíðarmeðlimi hennar og jafnvel gefa meðlimum konungsfjölskyldunnar aukið frelsi. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Um bloggið

Guðný Ósk Laxdal

Höfundur

Guðný Ósk Laxdal
Guðný Ósk Laxdal

Konungsfjölskyldur eru merkilegt menningarfyrirbæri sem eru stöðugt í sviðsljósinu og vekja sífellt áhuga. Guðný stúderaði nútímavæðingu bresku konungsfjölskyldunnar í B.A. ritgerð sinni í ensku við HÍ og hefur ávallt haft gaman af konunglegum málefnum, bæði sem dægurmál og fræðilegt menningarfyrirbæri. Hún skrifar útskýringarpistla og segir frá skemmtilegum staðreyndum og fer nánar í konunglegt slúður. Hún fjallar frekar um konungsfjölskylduna á instagram @royalicelander.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Screenshot 2020-01-08 at 21.54.00

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband