Vilhjálmur og Katrín í 10 ár

Núna eru komin 10 ár síðan Vilhjálmur bretaprins giftist Kate Middleton í Westminster Abbey. Því er um að gera að fara yfir 10 staðreyndir um hertogahjónin af Cambridge og brúðkaupið þeirra í tilefni dagsins.

  1. Nýtt nafn

Kate gekk inn í kirkjuna sem Kate Middleton en gekk út sem HRH Catherine the Duchess of Cambridge (hennar hátign Katrín, hertogaynjan af Cambridge, eins og við myndum segja á íslensku). Venja er að prinsar fái hertogatitil þegar þeir giftast og fá eiginkonurnar kvenútgáfuna af titlinum. Síðan 2011 ber Katrín ekki lengur Middleton nafnið, þó flestir þekki það nafn mjög vel. Það er hefð að konungsfólk beri ekki eftirnöfn, þar sem allir landsmenn eiga að vita um hvern ræðir. Katrín sjálf valdi að vera kölluð Catherine en ekki Kate.

 

  1. Tímabundin sambandsslit 

Vilhjálmur og Katrín kynntust fyrst í St. Andrew háskólanum í Skotlandi. Þar voru þau fyrst einungis vinir, og fluttu saman með öðrum vinum í íbúð árið 2002. Það er síðan árið 2004 sem samband þeirra varð opinbert, en þá sást Katrín með Vilhjálmi og fjölskyldu í skíðaferð í Sviss. Árið 2007 hættu þau stuttlega saman í um tvo mánuði en náðu svo aftur saman. Telja margir að tímabundnu sambandslitin hafi verið vegna þess að Vilhjálmur taldi sig ekki tilbúinn að biðja Katrínar. Úr því varð uppnefni slúðurblaðanna fyrir Katrínu "Waity Katie". Í október 2010 bað Vilhjálmur Katrínu um að giftast sér meðan þau voru að ferðast um Kenía. Trúlofunin var síðan gerð opinber á blaðamannafundi í nóvember 2010 og loks giftu þau sig 29. apríl 2011. 

 

  1. „Bíddu þar til þú sérð hana“

Mikil leynd var yfir brúðarkjólnum hennar Katrínar og einungis fáir sem höfðu séð hann áður en hann birtist fyrir heiminum. Kjóllinn var hannaður af Sarah Burton, hönnuði hjá Alexander McQueen tískuhúsinu. Hefð er fyrir því að ekki sjáist í handleggi konunglegra brúða við trúarathafnir og var það ástæðan fyrir síðerma kjól. Það að ermarnar voru úr blúndu leyfðu kjólnum að vera aðeins nútímalegri. 

Samkvæmt hefð mátti Vilhjálmur ekki snúa sér við til að sjá brúði sína ganga upp að altarinu, en bróðir hans Harry fékk leyfi til þess og á að hafa hvíslað að Vilhjálmi "bíddu þar til þú sérð hana" þegar Katrín gekk inn. Það fyrsta sem Vilhjálmur sagði við Katrínu þegar hann sá hana var „You look beautiful“.

  1. Líkindi við brúðkaup Karls og Díönu

Margt við brúðkaupið minnti á brúðkaup Díönu og Karls árið 1981, en bæði brúðkaupin voru í Westminster Abbey. Katrín tók sömu ákvörðun og Díana prinsessa gerði árið 1981, og valdi að fjarlægði orðið "hlýða" úr brúðkaupsheitunum. Einnig ber Katrín sama trúlofunarhring og Díana gerði. 

Eftir athöfnina ferðuðust brúðhjónin í hestakerru að Buckinghamhöll og birtust á svölunum þar fyrir framan mannfjöldann. Á svölunum kysstust þau fyrir framan alla og urðu mikil fagnaðarlæti. Þau ákváðu síðan að kyssast aftur. Foreldrar Vilhjálms, Díana og Karl voru fyrstu konunglegu brúðhjónin sem kysstust á svölunum eftir sitt brúðkaupið, en það var bara einu sinni. 

Mörgum fannst athyglisvert að Vilhjálmur og Katrín kysstust ekki við athöfnina, en þannig eru konunglegu hefðirnar. 

  1. Brúðartertan

Brúðarterta Vilhjálms og Katrínar var frekar smá miða við konunglegar brúðartertur, en hún var um 89 cm. Lítil samanborið við brúðartertu Karls og Díönu sem var ca 183 cm og brúðartertu Elísabetar og Filippusar sem var ca 274 cm. 

Kakan var ávaxtakaka og hefur ekki klárast í veislunni þar sem seinast var boðið upp á sneiðar af kökunni í skírn Lúðvíks prins árið 2018. 

 

  1. Afslappaðari brúðhjón

Eftir athöfnina, og kossana á svölum Buckinghamhallar, var hádegisverður fyrir gesti í Clarence House. Brúðkaupsveislan var síðan um kvöldið. Það kom öllum á óvart að Vilhjálmur og Katrín sáust keyra um á Aston Martin bíl Karls eftir hádegisverðinn. Þar voru brúðhjónin mjög afslöppuð, miðað við hestakerruferðina fyrr um daginn, og skemmtu sér konunglega. 

 

  1. Konunglegir gestir

Konungsfjölskyldum um 24 þjóða var boðið í brúðkaupið. Þar má telja Margréti danadrottningu, Viktoríu krónprinsessu Svíþjóðar og Daníel prins eiginmaður hennar, Albert prins af Mónakó og Charlene eiginkona hans (þá ógift), Felipe konungur Spánar (þá krónprins) var viðstaddur með Letizia eiginkonu sinni (þá krónprinsessu) og móður sinni Sofia spánardrottningu. Willem-Alexander og Maxima, kóngur og drottning Hollands voru líka viðstödd, en á þessum tíma voru þau krónprins og krónprinsessa. Meðlimir grísku konungsfjölskyldunnar voru líka á gestalistanum, en Filippus afi Vilhjálms fæddist prins af Grikklandi og Danmörku. 

  1. Konungleg heimili

Fyrst eftir brúðkaupið bjuggu Vilhjálmur og Katrín í Clarence House ásamt Harry, Karli og Kamillu. Eftir brúðkaupið fluttu þau inn í Kensingtonhöll (sem var heimili Díönu prinsessu). Harry flutti einnig inn í höllina stuttu seinna en flutti síðan út eftir að hann giftist Meghan. 

Það þarf ekki að hafa áhyggjur um að þröngt sé á þessum heimilum en Vilhjálmur og Katrín búa í "íbúð" 1A í Kensingtonhöll, en sú íbúð er á 4 hæðum með 20 herbergjum. Undanfarin ár hafa þau breytt íbúðum 8 og 9 í skrifstofur fyrir starfsfólk sitt. Íbúðir 8 og 9 voru heimili Díönu á sínum tíma. 

Katrín og Vilhálmur eiga einnig Anmer Hall, sveitasetur í Norfolksýslu. Setrið var brúðkaupsgjöf frá Elísabetu drottningu en þau fluttu ekki inn fyrr en 2013 og var setrið þá mikið endurnýjað. Anmer Hall er 3 km frá Sandringhamsetrinu, en það er í eigu Elísabetar sjálfrar og er breska konungsfjölskyldan þar vanalega um jólin. 

Cambridgefjölskyldan fyrir framan Anmer Hall 2020:

 
 
 
View this post on Instagram

A post shared by ITV News Royals (@itvnewsroyals)



  1. Sögulegir erfingjar

Árið 2013 eignuðust Vilhjálmur og Katrín sitt fyrsta barn Georg Alexander Lúðvík, og síðan stelpu árið 2015, Karlottu Elísabetu Díönu, og síðan strák árið 2018, Lúðvík Arthúr Karl. Öll börn þeirra bera prins og prinsessu tilil, þó þau séu barnabarnabörn drottningar. Þegar Vilhjálmur og Katrín áttu von á Georg var farið í að breyta erfðalögum titla, stærsta breytingin var að stelpur hafa sama rétt og drengir til að erfa titla, og að börn ríkiserfingja fái prinstitla. Áður fyrr voru það einungis börn karlskyns barna konungs sem fengu prins eða prinsessu titil. Þar sem Vilhjálmur er augljós ríkiserfingi á eftir föður sínum þá fá börn hans prinsa og prinsessu titla. 

Þegar Lúðvík prins fæddist fyrir þremur árum varð Karlotta söguleg að því leyti að hún er fyrsta breska prinsessan sem færist ekki aftur í erfðaröðinni við það að eignast yngri bróður. 

  1. Framtíðarkóngur og drottning

Vegna hás aldurs Elísabetar og Karls, er líklegt að ekki munu líða margir áratugir þangað til að Vilhjálmur erfir krúnuna. Mun Katrín þá vera honum við hlið og líklegast fá titilinn drottning, ef ekkert breytist. Mikið er um skilnaði í bresku konungsfjölskyldunni, Anna skildi við fyrsta mann sinn eftir 18 ár, Andrew og Sara skildu eftir 10 ára hjónaband og Karl og Díana skildu eftir 15 ára hjónaband. 

Vilhjálmur og Katrín hafa þó undanfarinn áratug sýnd mikla samheldni og verið mjög stöðug í sínu sambandi. Má því segja að þau minni frekar á Elísabetu og Filippus, en þau voru gift í rúm 73 ár.

 


Hverjir mæta í jarðarförina?

Fyrirkomulag jarðarfarar Filippusar prins var gert opinbert síðastliðin laugardag. Allt skipulag var þó tilbúið fyrir löngu, en vegna Covid þurfti að aðlaga skipulagið að núverandi sóttvarnarreglum í Bretlandi. Filippus sjálfur kom mikið að skipulagi að sinni eigin jarðarför, en má þá helst nefna líkbíllinn sem mun flytja hann í St. George kappelluna í Windsor. Er það sérstakur Land Rover sem Filippus hjálpaði til við að hanna fyrir jarðarförina.

 

Jarðarförin mun fara fram laugardaginn 17. Apríl kl. 15 (kl. 14 á íslenskum tíma). Almenningi verður meinaður aðgangur vegna Covid, en sýnt verður beint frá athöfninni. Athöfnin mun byrja á einnar mínútu þögn um allt Bretland. Áður en athöfnin hefst munu börn hans og barnabörn ganga á eftir líkbílnum, allir nema Elísabet sjálf. Filippus mun verða færður til hvíldar í konunglegu hvelfingunni í St. George Kapellunni, sem er sama kapella og þar sem Harry og Meghan giftu sig, og Eugenie og Jack Brooksbank. 

Samkvæmt núverandi sóttvarnareglum mega 30 koma saman í Bretlandi í jarðarförum. Hefur verið gefið út að öll börn hans, og barnabörn munu vera viðstödd, ásamt mökum. Að undanskilinni hertogaynjunni af Sussex, en hún fékk ekki leyfi hjá lækni til að ferðast. Hún á von á barni í sumar og býr í Bandaríkjunum. Harry fer því án konu sinnar í jarðarförina og fer í sóttkví fyrir laugardaginn, þar sem um er að ræða jarðarför fær hann undartekningu og getur farið í 5 daga sóttkví en ekki 10 daga. 

 

Ásamt nánustu fjölskyldumeðlimum, er ekki von á að neitt af barnabarnabörnunum verði viðstödd þar sem mörg þeirra eru mjög ung. Boris Johnson hefur tilkynnt að hann muni ekki mæta til að fleiri fjölskyldumeðlimiri geti verið viðstaddir. 

 

Gestalistinn er ekki staðfestur en það er búist við að hann muni líta svona út:

  • Elísabet drottning
  • Karl prins og Kamilla kona hans
  • Andrew prins 
  • Edward prins og Sophie (jarlinn og greifynjan af Wessex)
  • Anna krónprinsessa og Sir Timothy, eiginmaður hennar
  • Vilhjálmur og Katrín, hertogahjónin af Cambridge
  • Harry prins
  • Eugenie prinsessa og Jack Brooksbank
  • Beatrice prinsessa og Edo Mapelli Mossi, eiginmaður hennar
  • Louise og James, börn Edwards
  • Zara og Mike Tindall, dóttir Önnu og eiginmaður hennar
  • Peter Phillips, sonur Önnu.
  • David, jarlinn af Snowdon, sonur Margrétar prinsessu.
  • Sarah Chatto, dóttir Margrétar prinsessu.

 

Einnig munu frændsystkini Elísabetu vera viðstödd en það eru: 

  • Hertogahjónin af Gloucester
  • Hertogahjónin af Kent
  • Prins Michael af Kent, og kona hans.
  • Alexandra prinsessa.

 

Samtals telur þetta 29 gesti, en ásamt þessum fjölskyldumeðlimum mun einkaritari Filippusar einnig vera viðstaddur athöfnina en það er Brigadier Archie Miller-Bakewell. Er þá talan komin upp í 30.

 


Viðbrögð konungsfjölskyldunnar

Filippus prins lést síðastliðin föstudag. Í tilkynningu frá Buckinghamhöll lýsti Elísabet yfir missi sínum og sagði að hann hefði dáið friðsamlega. Við tekur 8 daga sorgartími fyrir drottninguna og Bretland allt, engin ný lög geta fengið konunglegt samþykki á þessum tíma og hafa stjórnmálamenn um allt konungsríkið dregið sig í hlé. Konungsfjölskyldan sjálf virðir 30 daga sorgartíma, þar sem þau klæðast einungis svörtum klæðnaði þegar þau koma fram opinberlega og sinna bara allra nauðsynlegustu skyldum sínum. Við munum sjá lítið af þeim næsta mánuðinn. 

Allir samfélagsmiðlar konungsfjölskyldunnar hafa verið teknir í gegn, og er svart þemað. Mynd af Filippusi er opnumyndin, og viðeigandi skjaldarmerki notað í stað mynda af meðlimum konungsfjölskyldunnar sem forsíðumynd. Opnuð hefur verið minningarbók á vef konungsfjölskyldunnar sem allir geta skrifað í. Starfsfólk mun velja kveðjur sem verða sýndar meðlimum konungsfjölskyldunnar. 

Vefsíður góðgerðarsjóða hertogahjónanna af Cambridge og einnig vefur hertogahjónanna af Sussex, Archewell, hafa sett upp minningarkveðju um prinsinn. Á vefsíðu Archwell er bara kveðjan, búið að er fjarlæga allar aðrar upplýsingar tímabundið.

Síðan Filippus lést á föstudaginn virðast börn Elísabetar taka vaktir með móður sinni. Karl sást fara frá Windsor-kastala á föstudaginn, Edward og Sophie voru þar á laugardagsmorgunn, Andrew seinnipart laugardags og Anna prinsessa eyddi laugardagskvöldinu í Windsor-kastala ásamt eiginmanni sínum, Timothy Lawrence.

Ekki hefur mikið heyrst frá mikið frá þeim opinberlega, Karl hélt ræðu þar sem hann minntist föður sín og birti á samfélagsmiðlum á laugardag. Talaði þá hann um föður sinn sem “my dear papa”. Andrew, Edward og Sophie hafa öll talað um að drottningin standi sig vel þegar þau hafa hitt almenning eða fjölmiðla yfir helgina, en nefna að andlát Filippusar skilji eftir mikið tómarúm í lífi hennar. Sophie, eiginkona Edwards, nefndi í samtali að Filippus hefði dáið mjög friðsamlega.

Viðtöl hafa verið sýnt hjá BBC og ITV þar sem börn Filippusar minnast föður síns. Flestir taka eflaust eftir því að í viðtölunum tala þau um föður sinn í þátíð, en viðtölin hafa verið tekin upp fyrifram, sumir partar af viðtölunum virðast vera allt frá 2011. 

Elísabet drottning er stóísk, og eins og Filippus, leggur mikla áherslu á skyldu framyfir einstaklingshagsmuni. Um leið og 8 daga sorgartími hennar líður á fólk von á að hún muni taka aftur upp sín venjulegu störf og sinna hlutverki sínu sem drottning. Við munum þó lítið sjá hana opinberlega á næstu mánuðum, og ekki í sínum venjulega litríka klæðnaði. Jafnvel gætum við séð hana klæðast svörtu í lengri tíma en er ætlast til, ekki ólíkt því sem Viktoría drottning gerði eftir að hún missti eiginmann sinn. En hún klæddist einungis svörtu í þau 40 ár sem hún var ekkja.

 


Af hverju er Archie ekki prins?

Viðtal Oprah við hertogahjónin af Sussex, Harry og Meghan var sýnt hér á landi í gærkvöldi og má vægast sagt segja að það er margt sem þarf að skoða betur og ræða. Eitt af því sem var rætt var titill sonar þeirra hjóna, Archie. 

Archie Harrison Mountbatten-Windsor fæddist í maí 2019, og þegar var tilkynnt um nafnið hans var líka tilkynnt að hann myndi ekki bera neinn titil en það yrði talað um hann með titilinn Master í formlegum tilkynningum. Ég veit þó ekki til að það hafi oft verið gert. 

Það kom fáum á óvart að Archie hafi ekki fengið titilinn prins, enda er hann barnabarnabarn drottningar og einungis börn og barnabörn hennar eiga rétt á titlinum prins eða prinsessa, en þó bera ekki öll barnabörn hennar þann titil. Til dæmis bera börn Önnu krónprinsesu enga titla, og yngri sonur Edwards ber titilinn vísigreifinn af Severn. Dóttir Edwards er einungis með titillinn Lady Louise. Það eru því einungis börn Karls og Andrews sem eru með prinsa og prinsessu titla. 

Archie hefði hinsvegar getað fengið titilinn Jarlinn af Dumbarton, sem er titill sem Harry prins hefur en notar ekki, en var ákveðið þegar Archie fæddist að hann myndi ekki nota þann titil. Sá er vissulega ekki sá sami og prins og fá fríðindi eða réttindi sem fylgja honum, en sá jarl titilinnl var ekkert ræddur í viðtalinu í gærkvöldi.

Breska konungsfjölskyldan, ólíkt norrænu konungsfjölskyldunum, er með strangt kerfi varðandi prinsa og prinsessu titla. Þú getur einungis fengið titilinn ef þú fæðist með hann og ert barn eða barnabarn konungs/drottningar. Eina undantekningin hefur verið kona prinsins af Wales sem fær þá titillinn prinsessan af Wales, en Kamilla er þó ekki með þann titil í dag. 

Þegar Karl verður konungur mun Archie, og framtíðarbörn Harry og Meghan, eiga rétt á að vera prins og prinsessur, enda þá orðin barnabörn konungs. Þó hafa þá val um hvort þau taka upp titilinn, en Harry og Meghan ráða því ef börnin hafa ekki náð 18 ára aldri.

 


Gifti sig í kjól drottningarinnar

Seinastliðinn fimmtudag var það tilkynnt af Buckinghamhöll að Beatrice, prinsessa í Bretlandi og eldri dóttir Andrésar prins, hefði gifst Edo Mapelli Mozzi fyrr um morguninn í leyni. Átti brúðkaupið sér stað í Windsor og voru um 20 gestir viðstaddir. Upprunalega átti brúðkaupið að vera 29. maí en vegna kórónuveirufaraldursins varð það aldrei að veruleika. Myndir frá brúðkaupinu voru ekki gefnar út af höllinni fyrr en daginn eftir, til að skyggja ekki á önnur tilefni sem voru sama dag og brúðkaupið. Alls hefur höllin gefið út fjórar myndir frá brúðkaupinu, aðallega af brúðhjónunum sjálfum og einni af þeim ásamt Elísabetu drottningu og Filippusi. Myndin með Elísabetu og Filippusi sýnir að haldið var í sóttvarnarbilið. Það sem er þó áhugaverðast að enginn mynd hefur verið birt af brúðhjónunum ásamt foreldrum þeirra, eins og hefð er fyrir. 

 
 
 
View this post on Instagram

A post shared by The Royal Family (@theroyalfamily) on Jul 18, 2020 at 2:01pm PDT

 

Beatrice prinsessa ákvað að heiðra ömmu sína á brúðkaupsdaginn en kjóllinn sem hún klæddist er gamall kjóll frá Elísabetu drottningu. Kjólinn var hannaður af Norman Hartnell, sem hannaði meðal annars brúðkaupskjól Elísabetar árið 1947. Brúðkaupskjóll Beatrice sást fyrst árið 1962 þegar Elísabet klæddist honum við frumsýningu á myndinni Lawrence of Arabia. Kjólnum hefur verið örlítið breytt fyrir Beatrice og er helsti munurinn að búið er að bæta við ermum. Er þetta mjög nútímaleg ákvörðun hjá Beatrice að vera í notuðum kjól og sýnir að konungsfjölskyldan er að reyna að verða umhverfisvænni í sínum ákvörðunum. Kjóllinn var ekki eina tengingin við Elísabetu, en kórónan sem Beatrice fékk að láni er sama kóróna og Elísabet var með á sinn brúðkaupsdag. Kórónan var gerð árið 1919 og var gjöf til Maríu drottningar, ömmu Elísabetar. Hún er þekkt sem Queen Mary kórónan og var Anna prinsessa einnig með kórónuna þegar hún giftist Mark Phillips árið 1973. Elísabet hefur einnig oft sést með kórónuna á formlegu tilefnum í gegnum árin.

 
 
 
View this post on Instagram

A post shared by The Royal Family (@theroyalfamily) on Jul 19, 2020 at 7:11am PDT

Einkamál föður Beatrice hafa skyggt mikið á brúðkaupið. Andrés prins hefur lent í miklum vandræðum vegna vináttu sinnar við Jeffrey Epstein, þó hann neiti að hafa þekkt manninn vel. Ýmsar ásakanir eru á hendur Andrési og er lögreglurannsókn enn í gangi. Tilkynnt var um trúlofun Beatrice og Edo í september í fyrra og í nóvember dró Andrés sig í varanlegt hlé frá konunglegum skyldum eftir vægast sagt vandræðalegt viðtal við BBC. Eftir þetta neituðu helstu sjónvarpsstöðvar í Bretlandi að sýna frá brúðkaupi Beatrice. Var því brúðkaupið minnkað og vangaveltur gengu um hvort að Andrés fengi yfirhöfuð að fylgja dóttur sinni niður altarið. Seinna meir varð covid faraldurinn til þess að brúðkaupinu var aflýst. Á þeim tíma var ekkert sagt um hvenær brúðkaupið yrði, en Edo kemur frá Ítalíu og er héraðið sem hann er frá það hérað á Ítalíu sem kom hvað verst út úr kórónuveirufaraldrinum. Var því ekki tilefni til mikils fögnuðar.

Það var þó gaman að heyra að brúðhjónin ákváðu að láta gefa sig saman í leyni með stuttum fyrirvara. Þessi ákvörðun leysti í raun allann vanda. Þannig var hægt að virða helstu sóttvarnir og láta lítið bera á viðburðinum. Elísabet og Filippus voru einu aðrir meðlimir konungsfjölskyldunnar sem voru viðstödd brúðkaupið. Nánasta fjölskylda Beatrice, foreldrar hennar og systir hafa þó væntanlega einnig verið viðstödd. Leynd brúðakaupsins gaf Beatrice þannig tækifæri að hafa föður sinn með í brúðkaupinu, en hefði brúðkaupið verið opinbert hefði það verið umdeilt. Ekki hefur verið leynilegt konunglegt brúðkaup í Bretlandi í 235 ár, en seinast var það Georg 4. sem giftist Maríu Fitzherbert í leyni árið 1785. Georg var þá prinsinn af Wales og giftist Maríu, en ástæða leyndarinnar var sú að María var kaþólsk og þáverandi konungur hafði ekki gefið leyfi fyrir hjónabandinu. Breska konungsfjölskyldan er mótmælendur og hefur það lengi verið regla að ef meðlimur giftist kaþólikka gefur sá hinn sami upp sína konunglegu tign, en þessum lögum var breytt árið 2013. Hjónaband Georgs og Maríu var seinna gert ógilt og Georg giftist Karólínu prinsessu árið 1795.

Áhugavert er að segja frá því að hér eftr er Beatrice ekki með titillinn prinsessan af York, heldur er hún núna einungis Beatrice prinsessa. Missir hún titilviðbótina sem tengir hana við föður sinn, þar sem hún “tilheyrir” honum ekki lengur. En prinsessu titillinn missir hún ekki þar sem hún er fædd prinsessa.

 
 
 
View this post on Instagram

A post shared by Edo Mapelli Mozzi (@edomapellimozzi) on Jul 19, 2020 at 4:56am PDT


Katrín móðguð vegna umfjöllunar um þreytu

Breska blaðið Tatler var með umfjöllun um Katrínu um daginn. Umfjöllunin hefur verið mjög umdeild og er það aðallega vegna þess hve harkalega Kensington-höll gagnrýnir umfjöllunina. Með Kensington-höll er átt við starfslið hertogahjónanna af Cambridge.

Í stuttu máli þá kemur fram í umfjölluninni að Katrín sé þreytt á hversu mikið álag sé núna á henni og hennar fjölskyldu eftir að Harry og Meghan drógu sig í hlé. Einnig sé hún sár yfir því að núna sé meiri pressa að börnin hennar séu í sviðsljósinu þegar færri meðlimir eru til að deila því. Umfjöllunin er byggð á vitnisburðum frá ónafngreindum „vinum“ Katrínar sem segja frá þessari upplifun hennar.

Síðan blað Tatler kom út hefur Kensingtonhöll gefið það út að þau hafi ekki verið upplýst um greinina og harma rangyrði hennar. En yfirlýsing hallarinnar má sjá orðrétt hér fyrir neðan á ensku.

 
Tatler hefur hinsvegar svarað þessari yfirlýsingu frá höllinni þar sem þau segja að höllin hafa verið látin vita af umfjölluninni en hafa ekki viljað hafast.

Höllin er ekki vön að skipta sér af svona umfjöllunum og má túlka þetta komment að staðreyndir umfjallarinnar hafi farið sérstaklega fyrir brjóstið á þeim.

Ég var sjálf með áhyggjur af því að ákvörðun Harry og Meghan um að draga sig í hlé myndi þýða að meiri pressa yrði á Cambridge-fjölskyldunni. Raunin er sú að Vilhjálmur og Katrín hafa haldið áfram að auka við sig skyldur líkt og þau hafa verið að gera undanfarin ár og hafa aðrir meðlimir konungsfjölskyldunnar frekar byrjað að sjást meira. Eru þetta aðallega Edward og Sophie, greifinn og greifynjan af Wessex, og Anna krónprinsessa. Þau hafa m.a. byrjað að sjást meira á samfélagsmiðlum konungsfjölskyldunnar eftir að Harry og Meghan „hættu störfum“.

Er auðveldlega hægt að lesa úr viðbrögðum Kensington-hallar að Katrín sé sár og móðguð vegna umfjöllun Tatler. Hefur verið sagt að Katrín sé víst mjög ósátt við að vera ásökuð um að vera að kvarta yfir að vera þreytt í ljósi aðstæðna í samfélaginu. Henni finnist það vera móðgun við fólk sem er að sinna nauðsynlegum störfum í Covid ástandinu. En Katrín er að sjálfsögðu í mikilli forréttindastöðu þó svo að hún þurfi núna að sinna konunglegum skyldum og vera með börnin heima. Vissulega má þó benda á að þetta kemur einnig frá ónafngreindum „vini“ Katrínar.

Katrín hefur verið virk í því undanfarnar vikur að vekja athygli á störfum fólks innan heilbrigðisgeirans, og þá sérstaklega á mikilvægi andlegrar heilsu þeirra sem vinna erfið störf á þessum kórónutímum. Fyrir stuttu tók hún t.d. þátt í að óska hjúkrunarfræðingum til hamingju með alþjóðlegan dag hjúkrungarfræðina, en þá kom hún fram í myndbandi ásamt öðrum meðlimum konungsfjölskyldunnar til að þakka hjúkrunarfræðingum fyrir störf sín.

 

 

 

 
 
 
View this post on Instagram

From The Queen and The Royal Family this #InternationalNursesDay: thank you.

A post shared by The Royal Family (@theroyalfamily) on May 12, 2020 at 8:25am PDT


Gjörbreyttur afmælisprins

Lúðvík prins, sonur hertogahjónanna af Cambridge, fagnar 2 ára afmæli í dag. Eins og hefð er fyrir voru gefnar út nýjar myndir af honum í tilefni dagsins. Alls voru þrjár nýjar myndir birtar og má segja að drengurinn hafi þroskast mikið undanfarið en hann er gjörbreyttur í útliti.

Lúðvík er yngstur af börnum þeirra Vilhjálms og Katrínar og eru myndirnar í ár teknar af Katrínu sjálfri. Það er orðið vaninn að Katrín taki myndirnar, sem og að allar afmælismyndir Cambridge krakkanna séu teknar utandyra. Í fyrra voru myndirnar af Lúðvík einnig teknar úti en hann hefur mikið breyst á þessu eina ári.



Það sem er skemmtilegast við myndirnar í ár eru að þær sýna Lúðvík litla mála með höndunum, og fær listaverkið sjálft að fylgja með. Gaman er að nefna að hann hefur verið að lita í regnbogalitunum en börn í Bretlandi hafa mikið verið að mála og teikna regnboga til að setja í glugga og gleðja. Ekki ólíkt því að setja bangsa í glugga eins og hefur verið gert hér á landi.

Listaverkið hjá Lúðvík hefur vakið athygli, en ef myndirnar eru skoðaðar vandlega má sjá að litirnir á höndunum hans passa ekki alveg við lokaútgáfuna. Því hægt að giska á að hann hafi fengið smá hjálp áður en verkið var talið nógu gott til að vera birt fyrir allan heiminn að sjá.

Ótrúlegast af öllu er samt að Lúðvík virðist ekki vera með neina málningu í andlitinu, en nokkru seinna voru birtar fleiri myndir sem sýna litla prinsinn búinn að setja málningu yfir sig allan. Sem sýnir að prinsar séu ekki alltaf svona hreinlegir, sérstaklega þegar þeir eru 2 ára. 

 


Konungsfólkið vinnur að heiman

Margir eru núna í þeim sporum að vinna heima hjá sér, og er kóngafólk heimsins engin undantekning. Eitt af stærstu hlutverkum konungsfjölskyldna í heiminum er að vera fyrirmyndir fyrir þegna sína, og er það sérstaklega mikilvægt þegar það er neyðarástand.

Undanfarna daga hafa meðlimir hina ýmsu konungsfjölskyldna í heiminum verið dugleg að sýna á samfélagsmiðlum hvernig þau vinna að heiman. Sýna myndir þetta fólk sitja fundi annaðhvort í síma eða með fjarfundabúnaði. Minna er núna um konunglegar heimsóknir vegna samkomubanna og mikilvægi þess að halda sig frá öðru fólki og þurfa því konungsfjölskyldurnar að birta öðruvísi myndir af sér við vinnu.


Elísabet Bretadrottning sýndi hvernig hún heldur við þeirri hefð að halda vikulegan fund með forsætisráðherra sínum þrátt fyrir hertar samkomureglur. Elísabet er um þessar mundir í sjálfskipaðari sóttkví í Windsor kastala með eiginmanni sínum, Filippusi. Þessi mynd sýndi líka að Elísabet er við góða heilsu, en margir hafa verið óttaslegnir um hana eftir að Karl sonur hennar var greindur með kórónaveiruna. Myndin er einnig söguleg, þar sem þetta er fyrsta myndin sem er gerð opinber af vikulegum fundi drottningarinnar og forsætisráðherra, en það er yfirleitt mikil leynd yfir þessum fundum.

Vilhjálmur og Katrín birtu mynd af sér í símanum eins og Elísabet og notuðu tækifærið til að minna fólk á að huga að andlegu heilsunni á þessu erfiðu tímum. Katrín og Vilhálmur sleppa ekki formlegheitum þó þau séu að vinna heima og má sjá að Katrín er í fallegri dragt, en dragtin er úr Marks & Spencer og kostar um 28 þúsund krónur samanlagt.

Skemtilegt er að taka eftir því að meðlimir bresku konungsfjölskyldunnar notast við síma, og síma með snúru í þokkabót meðan konungsfólk á norðurlöndunum virðast vera komin aðeins lengra í tækniþróuninni þegar kemur að fundarsetu.


Instagram-aðgangur sænsku konungsfjölskyldunnr birti mynd þar sem má sjá Viktoríu krónprinsessu vinna með borðið yfirfullt af pappírum. Einnig er mynd af henni og eiginmanni hennar, Daníel prins, sitja fjarfund. Viktoría kýs svipaðan stíl og Katrín, hertogaynjan af Cambridge fyrir myndatökuna. En það má nú samt nefna að Viktoría sést mun oftar í drögtum en Katrín.



Carl-Gustaf konungur Svíþjóðar og Silvia drottning sjást hér einnig sitja saman fjarfund rétt eins og Viktoría og Daníel.


Hákon krónprins Noregs hefur verið duglegur að setja inn myndir af sér á fjarfundum inn á Instagram-aðgang norsku konungsfjölskyldunnar. Má jafnvel sjá myndband inn á aðgangnum af því þegar Hákon prófar tæknina. Einnig er hægt að sjá að Hákon notar Apple tækni við sína vinnu og virðist nokkuð vel settur tæknilega.


Instagram aðgangur dönsku konungsfjölskyldunnr birti mynd af Friðrik krónprins sitja fjarfund í gegnum FaceTime, en Friðrik notast einnig við Apple tæki eins og Hákon frændi sinn. Danska konungsfjölskyldan hefur verið dugleg að halda sambandi við þegna sína, en Margrét danadrottning ávarpaði þjóðina í sjónvarpsútsetningu og Friðrik og Mary og börn sendu inn kveðju í sjónvarpsþátt DR1 um helgina sem var gerður til að sýna samstöðu Dana á þessum tímum.

Carl-Philip, prins Svíþjóðar og Sofia kona hans eru með sinn eigin Instagram-aðgang og birtu myndir af sér vinna heima. En þau eru klædd á frekar afslappaðan hátt en virðast hafa nóg að gera. Myndin af Sofiu hefur vakið athygli fyrir að vera einstaklega falleg og sýna gott vinnuskipulag.


Konunglegir skandalar 2020

Þó svo að árið sé tiltölulega nýbyrjað þá má segja að þegar kemur að konunglegum fréttum sé nóg að gerast. Undanfarnar vikur hefur mikið gengið á sem má teljast sem nokkuð slæm byrjun á nýjum áratugi. Breska konungsfjölskyldan hefur þar verið hvað háværust en fleiri konungsfjölskyldur í Evrópu hafa verið að takast á við slæmar fréttir. 

Danmörk:

Í janúar kom það í ljós að Friðrik krónprins og Mary krónprinsessa eiga stóran fjallaskála í Sviss sem enginn vissi af. Skálinn komst upp þegar það var tilkynnt að krónprins-fjölskyldan myndi flytja til Sviss í nokkrar vikur meðan börnin þeirra ganga þar í alþjóðlegan skóla. Málið varð frekar stórt í Danmörku en margir í ríkisstjórninni gagnrýndu að þau hafa átt skálann í mörg ár án þess að hann hafi nokkurn tímann verið gefinn upp í neinum fjárhagsáætlunum. 

 
 
 
View this post on Instagram

A post shared by DET DANSKE KONGEHUS (@detdanskekongehus) on Jan 1, 2020 at 11:44am PST

 

Belgía

Undanfarin áratug eða svo hefur fyrrum konungur Belgíu, Albert II, neitað því að hafa eignast dóttur með hjákonu sinni. Málið hefur verið lengi fyrir rétti og voru niðurstöður úr DNA rannsókn birtar í janúar. Kom þá í ljós að Delphine Boël er í raun og veru dóttir konungsins, og er því fjórða barn Alberts. Þessi gífurlega barátta og afneitun frá fyrrum konungi á sínu eigin barni kemur ekki vel út fyrir konungsfjölskylduna í Belgíu. 

 

Noregur

Norska konungsfjölskyldan hefur þurt að takast á við talsverð áföll undanfarnar vikur. Ari Behn tók eigið líf yfir hátíðirnar og var jarðaförin haldin í byrjun árs. Athöfnin var mjög tilfiningarík og átakanleg. Stuttu eftir varð kóngurinn lagður inn á spítala og tók Hinrik krónprins við kóngastarfinu meðan faðir hans var veikur. Það eru þó góðar fréttir að kónginum virðist líða mun betur í dag og hefur komið aftur til starfa. 

 
 
 
View this post on Instagram

A post shared by Det Norske Kongehuset (@detnorskekongehus) on Jan 3, 2020 at 7:19am PST

 

Spánn

Spænska konugnsfjölskyldan missti meðlim í janúar. En eldri systir Juan Carlos I konungs, sem er faðir núverandi konungs, dó 8.janúar. Pilar var mjög elskuð á Spáni. Það er líka erfitt að líta framhjá því að í dag hefur sem betur fer hafa reglur um erfðaröð breyst og í dag hefði Pilar orðið drottning, en ekki bróðir hennar. 

 

Svíþjóð

Það er nú langoftast rólegt hjá sænsku konungsfjölskyldunni, en þó kom það upp á að Estelle prinsessa lenti í slysi í skíðaferð á þessu ári og fótbrotnaði. Það er mikið lagt upp úr því að konungsfólk sé við góða heilsu og öruggt, enda eiga þau að vera tákn landsins. Þetta á við sama hvaða aldur er um að ræða. En Estelle á að vera við góða heilsu og á góðum batavegi. 

 

Bretland

Það hefur varla farið framhjá mörgum að Harry og Meghan sögðu af sér sem starfandi meðlimir konungsfjölskyldunnar. Tímasetning þessara tilkynningar var mikið áfall fyrir konungsfjölskylduna og varð til þess að mikil óvissa myndaðist, sem er að mörgu leiti ennþá í gangi. Ofan á þetta var á dögunum tilkynnt um að Peter Phillips, sonur Önnu krónprinsessu, og kona hans Autumn séu að skilja. Það er töluvert um skilnaði í þessari fjölskyldu, en það gerir ekki gott fyrir þá ímynd sem konungsfjölskyldan á að sýna. Þó er vert að nefna að Peter er ekki starfandi meðlimur konungsfjölskyldunnar og ber engann konunglegan titil. 

 


Loksins sátt í höllinni

Það var kominn tími til að breska konungsfjölskyldan færi að tjá sig um mál seinustu viku og er ég þá að sjálfsögðu að tala um yfirlýsingu Harry og Meghan um að þau vilji draga úr hlutverki sínu innan konungsfjölskyldunnar. Eða eins og þau sjálf tala um, þau vilji draga sig í hlé sem heldri meðlimir fjölskyldunnar.

Málið hefur verið mikið rætt undanfarna daga og því óþarfi að fara ítarlega yfir það, heldur frekar fara yfir það sem var gert opinbert í gær. Margir biðu eftir því að helstu meðlimir konungsfjölskyldunnar myndu hittast í persónu og fara yfir málin. Harry hitti Elísabetu drottningu, Karl bretaprins og Vilhjálm, hertogann af Cambridge á Sandringham-setrinu í gær og var Meghan með í gegnum síma. Mun enginn vita hvað nákvæmlega fór fram en tvær tilkynningar voru gerðar opinberar í gær sem gefa til kynna um hvað sé að gerast á bakvið tjöldin. 

Gærdagurinn byrjaði á því að Harry og Vilhjálmur gáfu út sameiginlega yfirlýsingu þar sem þeir mótmæltu fréttaflutningi um að samband þeirra væri í molum. Nefndu þeir að þar sem þeir eru miklir talsmenn góðrar andlegrar heilsu þá telja þeir svona tal vera móðgandi og mögulega skaðlegt. Þessi tilkynning þeirra gefur sterkt merki um það að samband þeirra er ekki eins slæmt og hefur verið haldið. Þetta er einnig mjög sterkur leikur til að sýna að fjölskylduböndin eru ennþá sterk og að þeir standi saman sem bræður. 
Síðan kom að drottningunni sjálfri að tjá sig. Elísabet er ekki þekkt fyrir að taka sterka afstöðu og kemur því ekkert á óvart að tilkynningin frá henni tali um að hún styðji við sonarsoninn og fjölskyldu hans, en harmi að Harry og Meghan vilji minnka hlutverk sitt innan konungsfjölskyldunnar. Það sem kemur hinsvegar á óvart í tilkynningunni, er hversu persónuleg hún er. Hún er skrifuð í fyrstu persónu og er frekar óformleg, miðað við að vera tilkynning frá drottningunni. Sami tónn er í þessari tilkynningu og þeirri frá prinsabræðrunum; fjölskyldan stendur saman. 

Í raun er þessi aftstaða um samstöðu það eina sem var til í stöðunni fyrir konungsfjölskylduna eftir yfirlýsinguna. Allt hefði farið á hliðina ef konungsfjölskyldan hefði afneitað Harry og Meghan, eða neitað þeim um að minnka við sig. Konungsfjölskyldan þarf ávallt að vera hlutlaus og reynir sitt besta að vera ekki of umdeild, sama hversu vel það gengur. Því er mikilvægt að sýna almenningi að það sé kátt í höllinni og allir sáttir. 

Vandamálið við þær breytingar sem Harry og Meghan vilja er að smáatriðin eru alls ekki á hreinu. Svona breyting hefur aldrei átt sér stað áður og það eru ekki til nein fordæmi innan konungfjölskyldunnar um þetta. Hvernig ætla Harry og Meghan að verða fjárhagslega sjáfstæð en samt sinna konunglegum skyldum? Hver mun borga fyrir öryggisverði þeirra? Munu þau þurfa að borga skatt í Kanada og Bretlandi af þeim tekjum sem þau fá? Og svo er stóra spurningin um hvort þau muni halda konunglegu tigninni sem fylgir hertogatitlunum þeirra. Von er á frekari tilkynningu frá höllinni á næstu dögum þar sem drottningin vill klára þetta mál sem fyrst og verður spennandi að fá frekari svör. Sama hvað gerist mun þetta verða ein stærsta breyting sem breska konungsfjölskyldan hefur gert lengi og mun hafa mikil áhrif á framtíðarmeðlimi hennar og jafnvel gefa meðlimum konungsfjölskyldunnar aukið frelsi. 


Næsta síða »

Um bloggið

Guðný Ósk Laxdal

Höfundur

Guðný Ósk Laxdal
Guðný Ósk Laxdal

Konungsfjölskyldur eru merkilegt menningarfyrirbæri sem eru stöðugt í sviðsljósinu og vekja sífellt áhuga. Guðný stúderaði nútímavæðingu bresku konungsfjölskyldunnar í B.A. ritgerð sinni í ensku við HÍ og hefur ávallt haft gaman af konunglegum málefnum, bæði sem dægurmál og fræðilegt menningarfyrirbæri. Hún skrifar útskýringarpistla og segir frá skemmtilegum staðreyndum og fer nánar í konunglegt slúður. Hún fjallar frekar um konungsfjölskylduna á instagram @royalicelander.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Screenshot 2020-01-08 at 21.54.00

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband